Unngarður - skattlendan og saga hennar

Um Unngarð:
Þorpið sjálft er ekki mjög stórt. Ásamt býlunum í kringum þorpið eru tæplega 500 íbúar þar en um 1500 manns á allri skattlendunni. Þrjár leiðir liggja úr þorpinu, suður, vestur og norður. Höfuðvegur liggur í norður í átt að Rauðveldi. Breiðviður hverfist um þorpið og er stutt í góðar veiðilendur.
Af húsmæðrunum er Arletha Icespear einna fyrirferðamest. Hún er breiðvaxin, hávær og vefur jafnan fálkafjaðrir í tvær fléttur sem hún hefur í hárinu. Fálki er ættardýr Icespear fjölskyldunnar. Elst dætra hennar er Doula, hún er ólík móður sinni því hún er hlédræg og fámál. Báðar eru þær svartar sem og allt þeirra slegti. Doula er einn helsti rekki Unngarðs, hún er lagin með boga og er ásamt Stirni, fálkanum hennar, afar fær veiðimaður.
Aðrar helstu húsmæður eru Magna Windear, Rolou van Roussov og Jarea Grey. Windear ættin er með elg í ættarmerki sínu, Roussov með greifingja en Grey með hjört. Hverju heimili ber skylda að leggja til ýmist verði eða veiðimenn.
Skammt frá þorpstorginu er eina gistihús þorpsins, Hafurinn & björninn, sem rekið er af dvergnum Tomaszi Brimestone. Hafurinn & Björninn er eina húsið í þorpinu sem er með kjallara en ölstofa gistihússins er öll niðurgrafin. Þannig er gengið niður langan stiga til að komast þangað en íbúar þorpsins láta það ekki á sig fá enda bæði vel veitt og dætur Tomaszar, þær Briet og Bridget, afbragðssöngvarar og sögumenn.
Halldura Yavanalov er æðsti drúíði svæðisins. Hann er á sjötugsaldri en ber aldurinn vel, í raun lítur hann út fyrir að vera um fertugt og ganga sögur um þorpið um að hugsanlega megi skýringu á því hve vel hann ber aldurinn finna hjá foreldrum hans, þ.e. að annað þeirra hafi verið álfur en hann hefur aldrei minnst á þau og ýmist hunsar spurningar þess eðlis eða bregst ókvæða við þeim.
Tvö minni þorp eru um dagleið frá Unngarði, annars vegar Eldlaugar en þar búa um 50 manns. Hins vegar Víðigarður en þar búa um 100 manns. Í Víðigarði er lítil járnnáma en það þorp hefur illt orð á sér, einkum vegna þess að íbúar þar eru harðir í horn að taka þegar kemur að viðskiptum, en þeir þurfa að treysta á að geta keypt hluta af vetrarvistum, enda erfitt að sinna bæði námu og veiðum.

Saga svæðisins

Einhverra hluta vegna hefur saga fjölskyldna alltaf verið sterkari þáttur í lífi íbúa Unngarðs en saga svæðisins, þó vissulega sé saga svæðisins saga þeirra. Þannig geta þorpsbúar rakið ættir sínar og sagt frá helstu hetjudáðum hverrar kynslóðar en fæstir geta þekkja það margar fjölskyldusögur að þeir geti sett sögurnar allar í samhengi þannig að úr verði samfelld frásögn.
Það sem er þó á almennu vitorði er að drýslar og aðrir kynstofnar sem teljast illir voru hraktir á brott fyrir löngu síðan en hver fjölskylda hefur sínar skýringar á hvers vegna það var gert og eru þær jafn ólíkar og þær eru margar. Flestar skýringarnar eiga þó það sameiginlegt að eitthvað var gert á hlut ættarinnar þannig að húsmóðirin reis upp og sagði illþýðinu stríð á hendur og tókst, með hjálp hinna ættanna, að vinna bug á óþjóðalýðnum.
Einnig eru til sögur um sjúkdóminn Hvítuna og hvernig hún lagðist á hvert heimili fyrir sig. Flestar húsmæður kunna einhver ráð við sjúkdóminum en fæst þeirra virka að einhverju ráði og voru það helst drúíðar og farandprestar sem náði að vinna bug á sjúkdóminum. Hans hefur ekki orðið vart í Unngarði í vel á fjórða áratug.
Í skattlendunni eru þrennar rústir, í hlíðum Silfurbergs standa hálfköruð hús og hruninn skíðisgarður, menjar þorpsins Straumhlíðar sem stóð eitt sinn þar. Meira en mannsaldur er síðan þorpið lagðist í eyði en ekki er vitað hvers vegna, þó eru margir sem hafa gaman af því að velta vöngum yfir því á dimmum vetrarkvöldum. Syðst á svæðinu stendur yfirgefinn turn, sem nefndur er Kögunarborg. Áður fyrr var þar jafnan varðlið en allir varðliðar hurfu eina nótt og hefur ekkert spurst til þeirra síðan. Íbúar Unngarðs hafa fyrir vikið illan bifur á turninum. Loks eru tóftir og grafhýsi í vestanverðum Svörtufjöllum en ekki er vitað hvað þær kunna að geyma eða hvað stóð þar. Þar standa hins vegar tveir ferstrengdir steinstöplar, skreyttir silfurlituðum rúnum, ekki ósvipuðum þeim sem standa víða í Unngarði og íbúar hafa kallað Mánasteina, einmitt vegna þess hve rúnirnar virðast taka á sig ankannalegan blæ í tungsljósi.

Unngarður - skattlendan og saga hennar

Hvítan - Ravenloft (Valachan) tmar78